Ísafjörður býður upp á fjörugt stúdentalíf. Þar má nefna vikulegt barsvar á brugghúsi bæjarins sem nemendur skipuleggja sjálfir, hittingar á nálægu kaffihúsi sem hefur orðið að einskonar miðstöð háskólanema, tungumálaklúbbinn á bókasafninu, bíómyndakvöld, sjálfboðaliðastöf og margt fleira. Ísafjörður er lítill bær en það er erfitt að verða uppiskroppa með eitthvað að gera.

Á Ísafirði er aðstaða til útivistar og íþróttaiðkunar til fyrirmyndar, fjölmörg íþróttafélög eru starfrækt og líkamsræktarstöð er í miðbænum. Frábærar aðstæður eru til iðkunar vetraríþrótta og fjallamennsku en fjölbreyttar skíðabrekkur og skíðagöngubrautir eru steinsnar frá miðbænum. Auk þess er aðstaða fyrir hverskyns sjóíþróttir afar góð og skemmtilegur golfvöllur er í næsta nágrenni. Mikið sönglíf er á Ísafirði og eru nokkrir áhugamannakórar starfandi í bænum.

Öll þjónusta í Ísafjarðarbæ er eins og best verður á kosið; hér er sjúkrahús og heilsugæsla, bókasafn, tónlistar- og listaskólar, framhaldsskóli og grunn- og leikskólar. Í miðbæ Ísafjarðar eru fjölbreyttar verslanir, kaffihús og veitingastaðir.

Menningarlíf bæjarins er þekkt fyrir að vera einstaklega kröftugt, en hápunktar þess eru nokkrar árlegar menningarhátíðir. Tónlistarhátíðirnar Aldrei fór ég suður, sem er haldin um páskana og Við Djúpið sem fram fer í lok júní ár hvert, hafa markað sér sess í íslensku tónlistarlífi. Þá er leiklistarhátíðin Act alone sem fram fer í byrjun júlí, einnig orðinn fastur liður í menningarlífi bæjarins en þar er einleikjaformið í brennidepli.

Á Vestfjörðum eru óþrjótandi möguleikar til að njóta fjölbreytilegs mannlífs og einstakrar náttúru og hvetjum við áhugasama til að kynna sér allt það sem fjórðungurinn hefur uppá að bjóða á upplýsingasíðunni westfjords.is.

Starfsmenn Háskólaseturs aðstoða nemendur í hvívetna til að þeir aðlagist fljótt og vel í vestfirsku samfélagi. Nánari upplýsingar um þjónustu bæjarins má nálgast á vef Ísafjarðarbæjar. Frekari upplýsingar um viðburði í Ísafjarðarbæ má nálgast á viðburðasíðu bæjarins.

Í myndbandinu hér að neðan getur þú kynnst þremur fyrrverandi nemendum Háskólaseturs og hvaða afþreying varð fyrir valinu á meðan þau lærðu á Ísafirði. Nina frá Króatíu hefur gaman af fjallahjólamennsku og fann mörg tækifæri til þess á Ísafirði. Róbert frá Hollandi er mikið fyrir fiskveiðar og komst að því að hann þarf aðeins að fara út á höfn til að veiða þorsk. Charlotte var mikið á kajak í Kanada og var ánægð með að finna kajakklúbb á Ísafirði.